Tengslum Íslands og enska knattspyrnufélagsins West Ham lýkur brátt, að því er fram kemur í sunnudagsútgáfu breska blaðsins Telegraph. Þar er fjallað um aðkomu Eggerts Magnússonar og Björgólfs Guðmundssonar að liðinu en West Ham er að stærstum hluta í eigu Straums-Burðaráss fjárfestingabanka.
Þrír bítast nú um að eignast West Ham, malasíski fjárfestirinn Tony Fernandes, fyrrum eigandi Birmingham City, David Sullivan og fjármálafyrirtækið Intermarket.
Telegraph rifjar upp ummæli Eggerts Magnússonar frá árinu 2007 þar sem hann sér ekkert því til fyrirstöðu að West Ham keppi í Meistaradeild Evrópu eftir fimm ár, árið 2012. Eggert hafi haldið áfram að koma á óvart, meðal annars með samningi við Inter Milan um kaup á Adriano. Á Eggert að hafa beðið um tvo tíma, hringt í Björgólf sem reddaði málunum en launakröfur Adriano þóttu svimandi háar fyrir lið eins og West Ham. Hins vegar vildi Adriano ekki fara til West Ham.
Segir í Telegraph að þetta sýni í hnotskurn eigendur West Ham á þessum tíma. Hins vegar veki athygli að West Ham hafi tekist að forðast gjaldþrot ólíkt fyrri eiganda, Björgólfi Guðmundssyni.