Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir við Bloomberg fréttastofuna, að þótt forseti Íslands hafi synjað Icesave-lögunum staðfestingar sé enn svigrúm til að lækka stýrivexti ef verðbólga lækkar.
„Það er svigrúm," hefur Bloomberg eftir Má, sem er í Sviss á fundi Alþjóða greiðslumiðlunarbankans. „Auðvitað þýðir þessi deila, að svigrúmið er minna en ella en það þýðir ekki, að svigrúmið sé ekki til staðar."
Bloomberg hefur eftir Má, að peningamálastefna Íslands byggist ekki á deilumálum, sem Íslendingar kunni að eiga í við erlend ríki. „Við mótum peningamálastefnu út frá efnahagsþróun, gengisþróun, verðbólguþróun og því hvort slaki er í hagkerfinu."
Már segir, að sú ákvörðun forseta Íslands, að staðfesta ekki lögin, þýði að óvissuástand sé framundan felli Íslendingar lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu.