Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,9% í janúar. Gangi spáin eftir hækkar verðbólga úr 7,5% í 7,9%.
Fram kemur í Morgunkorni bankans, að helsta ástæða hækkunarinnar sé skattbreytingar, en auk þess munu, eins og jafnan í janúarmánuði, togist á hækkunaráhrif af áramótaendurskoðun gjaldskráa og lækkunaráhrif vegna útsala.
Gangi spáin eftir mun vísitala neysluverðs samtals hækka um 2,2% á fyrsta fjórðungi ársins, þar af 1,2-1,3 prósentur vegna hækkunar opinberra gjalda.
Í febrúar og mars muni útsölulok þrýsta vísitölunni upp auk þess sem áhrifa af skattahækkunum muni áfram gæta í einhverjum mæli. Mæld verðbólga muni því aukast jafnt og þétt og ná hámarki í 9,4% í mars samkvæmt spánni.
Greining Íslandsbanka telur hins vegar að í kjölfarið dragi úr verðbólgunni að nýju og hún verði 4% í lok ársins.