Ljóst er að tugi milljarða króna þarf til í nýju fjármagni inn í 1998 ehf., eignarhaldsfélagið sem á Haga, til þess að rekstur félagsins standi undir sér. Hann þarf einnig að standa undir lánum sem hvíla á 1998 ehf., félaginu sem á Haga, sem eru nú nánast að fullu í eigu Arion banka.
Það er nú á borði Arion banka að ákveða
hvernig framtíðareignarhaldi á 1998 ehf. og Högum verður háttað, en
samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verður fjallað um tilboð þeirra Jóns
Ásgeirs Jóhannessonar og Jóhannesar Jónssonar á fundi í Arion banka
næsta mánudag. Samkvæmt sömu heimildum munu þeir Jón Ásgeir og Finnur
Árnason mæta á þann fund.
Útilokað er talið að bankinn gangi að
tilboði þeirra feðga óbreyttu, þar sem margt mun þykja óljóst um það
hvernig þátttaka erlendra fjárfesta í kaupunum á í raun að verða og í
hve miklum mæli. Sömu heimildir herma að bankinn telji tilboðið ekki
slæmt, en það þurfi einfaldlega margt að skýra og setja ákveðnar
tryggingar fyrir greiðslugetu.
Óbærileg skuldastaða
Skuldir
1998 ehf. í dag eru a.m.k. 50 milljarðar króna, að því gefnu að engar
skuldir félagsins hafi verið afskrifaðar í gamla Kaupþingi, og skuldir
Haga, samkvæmt nýjustu upplýsingum sem fyrir liggja, en þær eru úr
árshlutareikningi félagsins frá því 31. ágúst 2008, eru um 22
milljarðar króna. Samtals eru því skuldir félaganna yfir 70 milljarðar
króna og hefur þá ekkert tillit verið tekið til þess, hversu mikið
skuldir Haga hafa hækkað á undanförnu einu og hálfu ári, en ljóst er að
þær hafa hækkað umtalsvert, rétt eins og skuldir annarra fyrirtækja í
landinu.
Öll lán hækkuðu við gengisfall
Við
gengisfall krónunnar í október 2008 varð mikil hækkun allra áhvílandi
lána í atvinnurekstri og þar eru 1998 og Hagar að sjálfsögðu ekki
undanskilin.
Á sama tíma rýrnuðu flestar eignir mjög í verði, bæði
fasteignir og aðrar eignir, og líklega rýrnuðu óefnislegar eignir
(viðskiptavild) hvað mest, en samkvæmt ársreikningum Haga hafa
óefnislegar eignir jafnan verið stór hluti af eignum félagsins.
Vilja fresta sölu Haga
Nokkur
fjöldi stórra kröfuhafa Kaupþings er sagður vilja fresta sölunni á
Högum og jafnvel setja fyrirtækið í opið söluferli, enda um að ræða
stærstu eign bankans. Einhverjir kröfuhafa hafa komið að máli við
Brynjar Níelsson, lögmann Þjóðarhags, sem lýst hefur yfir áhuga á að
kaupa Haga. Kröfuhafarnir sem um ræðir telja það geta veikt stöðu
bankans ef Hagar yrðu seldir fyrri eigendum. Þeir telja að óánægja gæti
orðið meðal viðskiptavina Arion ef eignir yrðu seldar aðilum sem áður
höfðu misst þær út úr höndunum.