Færeyska fjárfestingarfélagið Løkir hefur keypt P/F Dimmalætting, sem meðal annars gefur út samnefnt dagblað í Færeyjum. Segja má að blaðið hafi þar með komist í íslenska eigu því meðal hluthafa í Løkir er íslenska félagið Lækir Capital. Til stendur þó að selja blaðið aftur þegar búið er að tryggja rekstrargrundvöll þess betur.
Að Løkir standa, auk Lækja Capital, Færeyjabanki og félögin Krúnborg og Tjaldur. Félagið hefur það að markmiði að kaupa fyrirtæki, sem eiga möguleika á að vaxa og dafna.
P/F Dimmalætting er elsta hlutafélag í Færeyjum og hefur gefið blaðið út frá árinu 1878. Innan samsteypunnar eru nú fleiri félög, svo sem atvinnuvefurinn Vinnuvitan.biz, skipaskráin Skipalistin og ferðaskrifstofan Vikutur. Þá á félagið meirihluta í Prentmiðstøðini, sem rekur blaðaprentsmiðju og -dreifingu, og helminginn í Føroya Prent, sem er stærsta bókaprentsmiðja eyjanna.
Í tilkynningu um kaupin segir að Løkir ætli ekki að reka fjölmiðla og því sé markmiðið að selja blaðið aftur þegar það hefur komist á traustari rekstrargrundvöll en rekstur Dimmalætting hefur verið þungur undanfarin misseri þótt gerðar hafi verið ýmsar ráðstafanir til að draga úr kostnaði.
Blaðið Sosialurin hefur eftir Lisbeth L. Petersen, sem var stærsti hluthafi í Dimmalætting, að það sé ekki auðvelt að selja fjölskyldufyrirtækið en mikilvægara sé að tryggja að blaðið geti komið út áfram og starfsfólkið haldi störfum sínum.
Lækir Capital er að stærstum hluta í eigu félagsins Lækir Holding, sem aftur er í eigu Hilmars R. Konráðssonar og Silfurblóms ehf. Það félag er í eigu Baldvins Björns Haraldssonar og Halldórs Þórhallssonar.