Forsvarsmenn Samsonar eignarhaldsfélags, sem er í gjaldþrotameðferð, geta ekki gert grein fyrir lánum eða fyrirgreiðslum fyrir meira en tvo milljarða króna
til að minnsta kosti sex félaga í eigu Björgólfsfeðga á Tortóla, Kýpur og Lúxemborg, sem eru skráð í bókhaldi félagsins. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.
Blaðið segir, að í skýringum helstu stjórnenda Samsonar til skiptastjóra þrotabús félagsins, segi að eini maðurinn, sem hefði upplýsingar um lánveitingarnar væri fyrrum framkvæmdastjóri Samsonar. Hann hefði fengið heilablóðfall árið 2007 og í kjölfarið hætt störfum hjá félaginu.
Viðskiptablaðið vísar til skriflegs svars Ásgeirs Friðgeirssonar, talsmanns Samsonar, til blaðamanns sem sent var í fyrra þar sem segi að „...sá góði maður var þeirrar gerðar að hafa allt á hreinu en var lítið fyrir að deila því með öðrum.“