Grikkland og Portúgal standa frammi fyrir hægum dauðdaga vegna lélegrar samkeppnisstöðu og mikils halla á ríkisfjármálum. Kemur þetta fram í greiningu frá matsfyrirtækinu Moody's.
Segir að samkeppnisstaðan sé líkleg til að leiða til æ versnandi efnahagsástands og minnkandi skatttekna, ef ekki verður gripið í taumana sem fyrst. Afleiðing af því yrði svo sú að sífellt stærri hluti þjóðarframleiðslu ríkjanna færi beint í vasa erlendra lánardrottna, einkum ef erlendir fjárfestar fara að krefjast hærri vaxta á ríkisskuldabréf Grikklands og Portúgals. Ríkisstjórnirnar myndu þurfa að bregðast við þessu með aukinni skattheimtu, sem aftur gæti kæft fjárfestingu og hagvöxt og ýtt undir fólksflótta.
Yfir lengri tíma myndi þessi þróun valda hægum dauðdaga hagkerfanna tveggja.
Telur Moody's að Portúgal hafi meiri tíma til að snúa við þessari þróun, en Grikkland standi hins vegar frammi fyrir erfiðum ákvörðunum. Hefur matsfyrirtækið lækkað lánshæfiseinkunn Grikklands úr A1 í A2 með neikvæðum horfum, en Portúgal hefur ennþá einkunnina Aa2, reyndar með neikvæðum horfum.
Halli á ríkissjóðnum nam 12,7 prósentum af vergri landsframleiðslu í fyrra og opinberar skuldir eru tæplega 115 prósent af VLF. Reglur evrusvæðisins segja hins vegar að aðildarríki eigi að halda fjárlagahalla innan þriggja prósenta af VLF og opinberum skuldum innan sextíu prósenta af VLF.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fordæmdi í vikunni ríkisstjórn Grikklands fyrir að hafa í raun falsað tölulegar upplýsingar um stöðu ríkisfjármála í Grikklandi. Gerði framkvæmdastjórnin það ljóst að hún ber lítið sem ekkert traust til grískra hagtalna. Jafnvel megi gera ráð fyrir því að tölur grískra stjórnvalda um stöðu ríkisfjármála vanmeti vandann, þrátt fyrir að um endurskoðaðar tölur eigi að vera að ræða.
Í apríl í fyrra spáðu grísk stjórnvöld því að halli á rekstri ríkissjóðs yrði um 3,7 prósent, en í október sögðu þau að útlit væri hins vegar fyrir 12,7 prósenta halla. Framkvæmdastjórnin segir að ekki sé útilokað að það mat sé líka rangt.
Ástæður fyrir því hve lélegar hagtölurnar eru telur framkvæmdastjórnin m.a. að séu skortur á samráði milli ráðuneyta og stofnana og einnig skortur á upplýsingum um hvar ábyrgð á gagnaöflun liggi í hvert sinn. Þá leikur spilling stórt hlutverk, eins og Papandreou hefur sjálfur viðurkennt.