Björgólfur Thor Björgólfsson er að missa lyfjafyrirtækið Actavis frá sér, samkvæmt kvöldfréttum Stöðvar 2. Þar kom fram að engar meiriháttar ákvarðanir séu nú teknar án samráðs við þýska bankann Deutsche bank, einn helsta lánardrottin fyrirtækisins.
Einnig kom þar fram að samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 lægju nú þegar fyrir drög að samkomulagi um yfirtöku bankans á meirihluta hlutafjár Actavis. Björgólfur yrði áfram hluthafi en í minnihluta. Vitnað var í yfirlýsingu frá Björgólfi Thor, þar sem hann segir að núverandi stjórn fyrirtækisins ráði enn stefnumótun og rekstri Actavis. Engin áform séu uppi um að lánardrottnar breyti skuldum í hlutafé. Actavis hafi átt í mjög góðu samstarfi við lánardrottna um skuldastöðuna og eigi enn.