Bresku fjárfestarnir David Gold og David Sullivan, fyrrum eigendur Birmingham, eru samkvæmt frásögnum dagblaða í Bretlandi á góðri leið með að taka yfir fótboltafélagið West Ham, sem dótturfélag Straums hefur haldið utan um eftir að Björgólfur Guðmundsson varð gjaldþrota.
Samkvæmt frásögn The Telegraph náðist eitthvað samkomulag á föstudagskvöld. Þar með sé ævintýrasaga mögulega á enda, þar sem megi hafa samúð með öllum sögupersónum að undanskildum þeim Björgólfi Guðmundssyni og Eggerti Magnússyni. Eggert er sagður hafa skuldsett félagið upp í topp og teflt framtíð þess í tvísýnu, til að fullnægja eigin hégómagirnd þeirra Björgólfs.