Fjárfestar hafa ekki verið jafn áhættusæknir frá því að fjármálakreppan brast á með fullum þunga. Þetta kemur fram í könnun sem Bank of America Merrill Lynch gerir reglulega meðal sjóðstjóra víðsvegar um heim. Lesa má aukna áhættusækni meðal sjóðstjóranna í þeirri staðreynd að þeir minnka hlutfalls reiðufés í sjóðum sínum og auka á móti stöðutökur á hlutabréfamörkuðum. Ennfremur spyr könnunin um í hversu miklu mæli þeir verja stöður sínar gegn falli á hlutabréfamörkuðum.
Samkvæmt umfjöllun Financial Times þá er hlutfall reiðufés af sjóðum þeirra sem tóku þátt í könnuninni aðeins 3,4% í þessum mánuði og hefur það ekki verið lægra frá því um mitt sumar árið 2007. Hlutfallið var 4% í síðasta mánuði. Að sama skapi kemur fram í henni að færri fjárfestar kjósa nú að verja sig gegn almennri niðursveiflu á hlutabréfamörkuðum. Samkvæmt könnunni hafa 55% þeirra sjóðsstjóra sem voru spurðir ekki keypt sér neina varnir fyrir almennri lækkun hlutabréfa á næstu þremur mánuðum. Þetta hlutfall var 48% í síðasta mánuði.
Financial Times hefur eftir sérfræðingi Merrill Lynch að þetta sé til marks að menn séu að verða mjög bjartsýnir á horfurnar á hlutabréfamörkuðum og að færri en áður óttast að önnur niðursveifla sé yfirvofandi í helstu hagkerfum heims.