Ólafur Ísleifsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, hefur verið skipaður formaður stjórnar ISB Holding, eignarhaldsfélags Íslandsbanka. Þá hafa María Björg Ágústsdóttir, starfsmaður skilanefndar Glitnis, og Ásta Þórarinsdóttir verið skipaðir stjórnarmenn eignarhaldsfélagsins. María Björg er fulltrúi skilanefndarinnar í stjórninni.
Þetta staðfestir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að stjórnin hafi nú þegar tekið til starfa og að á meðal fyrstu verkefna hennar verði að skipa stjórn Íslandsbanka.
Samkvæmt úrskurði Fjármálaeftirlitsins frá 7. janúar skal eignarhald Íslandsbanka vera í höndum sérstaks dótturfélags Glitnis (ISB Holding), sem lýtur stjórn sem er að meirihluta skipuð stjórnarmönnum óháðum Glitni, stórum kröfuhöfum og Íslandsbanka sjálfum.
„Er skilanefnd Glitnis gefinn kostur á að tilnefna einn fulltrúa sinn í þriggja manna stjórn ISB Holding, en hinir tveir, þ.m.t. stjórnarformaður, skulu vera óháðir. Útnefning allra stjórnarmanna eignarhaldsfélagsins er háð samþykki Fjármálaeftirlitsins og skulu þeir uppfylla kröfur þess, m.a. um þekkingu og reynslu af fjármálastarfsemi,“ segir í úrskurði FME.