Breski kaupsýslumaðurinn Malcolm Walker, forstjóri Iceland
verslanakeðjunnar í Bretlandi, hefur óskað eftir viðræðum við Arion
banka vegna tilboðs hans og Baugsfeðga í tæplega 96% hlut bankans í
Högum. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
„Malcolm Walker er einn þeirra sem standa að tilboði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, föður hans og annarra fjárfesta í eignarhlut Arion banka í Högum, en feðgarnir freista þess nú að eignast á ný 95,7% hlut í fyrirtækinu sem þeir misstu í nóvember síðastliðnum," að því er segir á vef Vísis.
Malcolm Walker, forstjóri Iceland-keðjunnar í Bretlandi hefur sett sig í samband við stjórnendur Arion banka og óskað eftir viðræðum um tilboðið. Þetta fékk Stöð 2 staðfest hjá Arion banka í dag. Þær upplýsingar fengust að stjórnendur bankans hefðu ekki sest niður með Walker enn og ekki væri ljóst hvort af fundinum yrði.