Viðskiptavild Sjóvar kom ekki inn á borð Fjármálaeftirlitsins þegar ákvörðun var veita félaginu starfsleyfi. Aðeins er litið til efnislegra eigna tryggingafélaga við slíkar ákvarðanir. Þetta segir Lárus Ásgeirsson, forstjóri Sjóvar í samtali við Morgunblaðið.
Greint var frá því í blaðinu í dag að óefnislegar eignir tryggingafyrirtækisins jafngiltu tæplega 90% eiginfjár þess. Með öðrum orðum - af þeim 16,6 milljörðum sem félagið telur sér til eigna umfram skulda, eru tæplega níu tíundu hlutar þess í formi óefnislegra eigna sem ekki er hægt að nýta til útgreiðslu tryggingabóta.
Lárus segir að viðskiptavinir félagsins þurfi engar áhyggjur að hafa af sínum hag, þrátt fyrir að óefnislegar eignir séu um þriðjungur eigna félagsins. Eignasafn félagsins hafi hlotið náð fyrir augum fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum og reglum. Viðskiptavildin sé bókhaldsleg stærð, sem hafi orðið til við endurreisn félagsins. Um mitt ár 2009 var Sjóvá bjargað fyrir atbeina íslenska ríkisins, en félagið átti ekki lengur fyrir bótaskuld sinni vegna mislukkaðra fasteignafjárfestinga í Austurlöndum fjær.
Nánar er fjallað um viðskiptavild Sjóvar í Morgunblaðinu sem kemur út fyrramálið.