Verðmæti bréfa í mörgum evrópskum bönkum hefur fallið frá opnum markaða í morgun, sem sérfræðingar segja ljóst að tengist ummælum Baracks Obama Bandaríkjaforseta um að til standi að ráðast í aðgerðir til að takmarka stærð og umfang bandarískra banka.
Almennt hafa markaðir tekið nokkra dýfu eftir ummæli Obama, og hefur verðmæti bréfa í evrópskum bönkum fallið um eitt til fjögur prósent í morgun.
Virði í Barclays féll um 3,25 prósent eftir að hafa fallið um tæp sex prósent í gærkvöld, en Barclays á miklar eignir á Wall Street eftir kaup í Lehman Brothers eftir fall þess síðarnefnda árið 2008.
Þá dróst verðmæti bréfa í hinum svissneska UBS saman um 3,73 prósent í morgun, verðmæti Deutsche Bank féll um 2,93 prósent og virði bréfa í hinum franska BNP Parabis féll um 1,70 prósent, svo eitthvað sé nefnt.
Eins og sagt var frá fyrr í morgun féllu bandarískir bankar einnig talsvert í verði eftir ummæli Obama, en verðmæti bréfa í Bank of America, JPMorgan Chase og Goldman Sachs féllu í gærkvöld um fjögur til sex og hálft prósentustig.