Þýsk fréttastofa segir, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins óttist að gjaldmiðilssamstarfið á evrusvæðinu kunni að hrynja saman vegna þess hve samkeppnisstaða ríkjanna 16, sem nota evru sem gjaldmiðil, er mismunandi.
Þetta er talið geta grafið undan trausti á evrunni, að sögn þýsku fréttastofunnar DPA. Sagt er frá málinu á vef danska blaðsins Jyllands-Posten, í dag.
Fréttastofan segir, að Olli Rehn, sem nú fer með efnahags- og peningamál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hafi einkum áhyggjur af stöðu þeirra landa, sem eru með miklar opinberar skuldir.
Þetta eru einkum Írland, Grikkland og Spánn sem berjast nú við auknar vaxtagreiðslur og fjárlagahalla.