Spáir lækkun stýrivaxta

Greining Íslandsbanka spáir því nú, að Seðlabankinn lækki stýrivexti á morgun en þá verður vaxtaákvörðun peningastefnunefndar bankans birt. Spá Íslandsbanka byggist á því að vísitala neysluverðs reyndist hafa lækkað í janúar, þvert á spár sérfræðinga. 

Íslandsbanki hafði áður spáð því að stýrivextir yrðu óbreyttir en í Morgunkorni Íslandsbanka í dag segir að nú megi reikna við með því að peningastefunefndin ákveði að lækka vexti bankans lítillega. Líklega muni vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka um 0,25 prósentur í 8,25% en vextir á viku veðlánum, hinir hefðbundnu stýrivextir, lækki um 0,5 prósentur í 9,5%.

Í Morgunkorni er vísað í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar vegna vaxtaákvörðunar hennar 9. desember þar sem kom fram, að haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðni ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds að vera áfram til staðar.

Nú hefur, segir Íslandsbanki, verðbólgan hjaðnað umtalsvert frá síðustu vaxtaákvörðun og gengi krónunnar haldist nokkuð stöðugt. Því virðist sem þau tvö skilyrði sem peningastefnunefndin setur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds vera til staðar.

Verðbólgan mælist nú 6,6% og hluti af henni er  bein afleiðing af hækkun óbeinna skatta um áramótin. Segir Íslandsbanki, að peningastefnunefndin muni líta framhjá þeim þætti við ákvörðun sína. Þessu til viðbótar séu vísbendingar um að framleiðsluslakinn í hagkerfinu fari vaxandi,  samdráttur landsframleiðslu sé umtalsverður og atvinnuleysi að aukast enn. Þannig ætti verðbólgan að hjaðna enn á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK