Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors hefur samþykkt, að selja hollenska sportbílaframleiðandanum Spyker Cars sænska dótturfélagið Saab. Þetta kemur fram á vef Bloomberg fréttastofunnar en Spyker hefur boðað til blaðamannafundar í Stokkhólmi í kvöld.
Viðskipti með bréf Spyker voru stöðvuð í kauphöllinni í Amsterdam í dag. Í gær hækkuðu bréf fyrirtækisins um rúmlega 80% vegna frétta um að það væri að ganga frá samningi um að kaupa Saab.
Bloomberg segir, að Spyker hafi fallist á að greiða 74 milljónir dala í reiðufé, jafnvirði um 9,5 milljarða króna, og 326 milljónir dala í hlutabréfum, jafnvirði 41,6 milljarða króna. Samningurinn er háður því, að sænska ríkið ábyrgist 400 milljóna evra lán frá Evrópska fjárfestingarbankanum.
Stjórn Saab hafði áður samþykkt að leggja Saab niður og sagði, að tilboð sem komið hefðu fram væru ekki nógu hagstæð. Um 3500 starfsmenn starfa hjá Saab verksmiðjumum í Trollhättan í Svíþjóð.
Saga Saab nær yfir 72 ár. Fyrirtækið Svenska
Aeroplan AB vara stofnað árið 1937 til að framleiða herflugvélar en fyrsti bíllinn var framleiddur áratug síðar. GM keypti helming fyrirtækisins árið 1990 og yfirtók það að fullu árið 2000.