Ólafur Ólafsson og stjórnendur Samskipa, í gegnum SMT Partners, eignast Samskip eftir endurskipulagningu. Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.
Fram kemur að undanfarna mánuði hafi stjórnendur og eigendur Samskipa, sem hafi að stærstum hluta verið Kjalar, unnið að endurskipulagningu á fjárhag Samskipa með viðskiptabönkum félagsins. Þar sé hollenski bankinn Fortis mikilvægastur en Arion banki, sem endurreistur hafi verið á grunni innlendra eigna gamla Kaupþings, sé viðskiptabanki félagsins hér á landi. Niðurstaða liggi fyrir og hafi SMT (Samskip Management Team) Partners, sem sé félag í eigu Ólafs Ólafssonar kaupsýslumanns og stjórnenda Samskipa, eignast tæp 90% hlut í Samskipum með því að leggja til aukið hlutafé.
Þá segir að Viðskiptablaðið hafi ekki fengið uppgefið hversu mikið það sé en Arion banki segi að engar skuldir hafi verið afskrifaðar.