Seðlabankinn segir í ársfjórðungsriti sínu Peningamáalum, að óvissa um efnahagshorfur hafi aukist vegna meiri óvissu um framgang efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Gerir Seðlabankinn nú ráð fyrir 3,4% samdrætti landsframleiðslu á þessu ári en í nóvember spáði bankinn 2,4% samdrætti.
Seðlabankinn segir, að í meginatriðum séu efnahagshorfur svipaðar og í nóvember. Samdrátturinn á síðasta ári hafi veirð minni en áður var talið en á móti verði hann meiri á þessu ári. Efnahagsbatinn verði veikari, einkum vegna seinkunar fjárfestingar tengdrar stóriðju. Talið er að verðbólga hjaðni meira á fyrsta fjórðungi þessa árs en að hún verði meiri út næsta ár en útlit var fyrir í nóvember, enda hækkun launakostnaðar á framleidda einingu meiri, gengi krónunnar heldur veikara og verðbólguvæntingar hærri.
„Óvissa um efnahagshorfur hefur jafnframt aukist vegna meiri óvissu um framgang efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Mikilvæg forsenda spárinnar er að þessi óvissa minnki tiltölulega fljótlega, ella eru horfur á því að fjárfesting taki seinna við sér og samdráttur landsframleiðslu og atvinnuleysi verði meiri en hér er spáð," segir í Peningamálum.
Fram kemur, að gengisvísitala krónunnar miðað við þrönga viðskiptavog hafi lækkað um 1,2% frá útgáfu Peningamála í nóvember en á þessu tímabili hafa engin inngrip hafa verið af hálfu Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði.
Gengi krónunnar hefur styrkst um 2,7% gagnvart evru á innlendum gjaldeyrismarkaði og verið nánast óbreytt gagnvart Bandaríkjadal. Uppfærð spá gerir ráð fyrir að gengi krónunnar haldist lágt á næstu misserum líkt og í nóvemberspánni.
Á aflandsmarkaði hefur krónan veikst um 9,6% gagnvart evru frá útgáfu síðustu Peningamála. Seðlabankinn segir, að líklega megi rekja til harðari framfylgdar gjaldeyrishafta frá byrjun nóvembermánaðar fremur en aukinnar svartsýni um gengishorfur.
Seðlabankinn segir að verg landsframleiðsla hafi dregist saman um 7,7% á síðasta ári, dragist saman um 3,4% á þessu ári en á árinu 2011 verði 2,6% hagvöxtur og 2,8% árið 2012.
Bankinn gerir ráð fyrir að gengi evru verði að jafnaði 179,10 krónur á þessu ári, 174,40 krónur árið 2011 og 173,20 krónur árið 2012.
Þá spáir Seðlabankinn því, að verðbólga á þessu ári verði að jafnaði 5,6%, verði 4,3% árið 2011 og 2,2% árið 2012.
Spáð er 9,5% atvinnuleysi á þessu ári, 9% á næsta ári og 6,8% árið 2012.