Stýrivextir lækka í 9,5%

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar Óskarsson

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka í 8,0%. Hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum verða 9,25%. Vextir á lánum gegn veði til sjö daga verða 9,5% (sem yfirleitt eru nefndir stýrivextir) og daglánavextir 11%.

Stýrivextir ekki lægri síðan í september 2005

Rök fyrir ákvörðuninni og efni fyrsta heftis Peningamála verða kynnt klukkan 11 í dag.

Stýrivextir Seðlabanka Íslands hafa ekki verið jafn lágir síðan í september 2005 en þá höfðu þeir hækkað jafnt og þétt frá því í maí 2004 er þeir voru 5,3 prósentur.

Skeggskurður síðar í dag

Þetta þýðir að veitingamennirnir Tómas Tómasson og Úlfar Eysteinsson hljóta að skera skegg sitt í dag. Frá því í maí hafa félagarnir Tómas á Hamborgarabúllu Tómasar og Úlfar á Þremur frökkum mótmælt háum vöxtum með vexti – það er að segja skeggvexti.

Í takt við spá Greiningar Íslandsbanka

Í gær breytti Greining Íslandsbanka vaxtaspá sinni í kjölfar lækkunar vísitölu neysluverðs.

Greining Íslandsbanka reiknaði með því að nefndin myndi  lækka vexti bankans lítillega, og þá á þann veg að vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækki um 0,25 prósentur í 8,25% en vextir á viku veðlánum (hinir hefðbundnu stýrivextir) um 0,5 prósentur í 9,5%. Fyrri spá Greiningar hljóðaði upp á óbreytta stýrivexti.

 Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar vegna ákvörðunar hennar 9. desember síðastliðinn kemur fram að haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðnar eins og spáð er, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds að vera áfram til staðar. „Nú hefur verðbólgan hjaðnað umtalsvert frá síðustu vaxtaákvörðun og gengi krónunnar haldist nokkuð stöðugt. Því virðist sem þau tvö skilyrði sem peningastefnunefndin setur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds vera til staðar.

Þegar peningastefnunefndin gaf út yfirlýsingu sína í desemberbyrjun var verðbólgan 8,6%. Nú er hún 6,6%. Hluti af verðbólgunni er bein afleiðing af hækkun óbeinna skatta sem peningastefnunefndin mun líta framhjá við ákvörðun sína.

Ef litið er á verðbólguna samkvæmt fastskattavísitölunni þá hefur verðbólgan þannig mælt farið úr 7,7% í 5,2% frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndarinnar. Þessu til viðbótar eru vísbendingar um að framleiðsluslakinn í hagkerfinu fari vaxandi, og er samdráttur landsframleiðslu umtalsverður og atvinnuleysi að aukast enn. Þannig ætti verðbólgan að hjaðna enn á næstunni," að því er fram kom í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka