Japanski bílaframleiðandinn Toyota tilkynnti í gær, að sölu hefði verið hætt tímabundið á átta bílategundum í Bandaríkjunum vegna galla sem komið hefði í ljós. Svo virðist sem bensíngjöfin geti fests. Toyota innkallaði 2,3 milljónir bíla í Bandaríkjunum í síðustu viku vegna þessa vandamáls.
Framleiðslu bíla í fimm verksmiðjum Toyota í Bandaríkjunum hefur verið hætt í viku í byrjun febrúar á meðan málið er rannsakað. Að sögn sérfræðinga er um að ræða fordæmalausa ákvörðun.
Að sögn fyrirtækisins er hugsanlegt, að bílar sem seldir hafa verið í Evrópu, verði einnig innkallaðir vegna svipaðs galla. Að sögn japanskra fjölmiðla er hugsanlegt að um 2 milljónir bíla verði innkallaðar þar.
Málið er mikið áfall fyrir Toyota Motor, sem hefur haft orð á sér fyrir að framleiða endingargóða bíla sem bila sjaldan. Gagnrýnendur velta því nú fyrir sér hvort fyrirtækið hafi fórnað gæðaeftirliti fyrir að ná þeirri stöðu að verða stærsti bílaframleiðandi heims.