Nauðasamningar sem lagðir hafa verið fyrir kröfuhafa Bakkavarar Group fela í sér umtalsverðan hvata fyrir þá Lýð og Ágúst Guðmundssyni, sem stundum eru nefndir Bakkabræður.
Til að mynda er gert ráð fyrir að um leið og þeir hafa náð þeim áfanga að greiða lánardrottnum til baka 40% af skuldinni, ásamt áföllnum vöxtum, fari þeir að vinna sér sér inn hlutdeild í fyrirtækinu og hún getur orðið frá því að vera engin upp í að vera að hámarki 25%.
Eignarhlutfall Bakkabræðra gæti því vaxið hraðar, eftir því sem betur gengur að greiða niður skuldirnar, og við 100% endurgreiðslur gætu þeir átt 25% í Bakkavör. Gangi þetta eftir verða gefin út ný hlutabréf og 26,7% hlutur lánardrottna mun þynnast niður í 20%.
Þeir sem blaðið hefur rætt við eru misjafnlega bjartsýnir á hvort forsendur nauðasamninganna séu raunhæfar en hins vegar er staða kröfuhafanna slæm enda eru engar eignir í Bakkavör Group og eignir dótturfélaga kirfilega afgirtar. Í raun og veru eiga kröfuhafar, sem eru m.a. helstu lífeyrissjóðir landsins, lítið annað en kröfu án trygginga og veða.
Sjá nánari umfjöllun um málefni Bakkavarar í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.