Samkvæmt bráðabirgðatölum voru fyrir allt árið 2009 fluttar út vörur
fyrir 497,1 milljarð króna en inn fyrir 409,9 milljarða króna. Afgangur var á vöruskiptunum við útlönd
samkvæmt bráðabirgðatölum, 87,2
milljarðar króna, en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 8,9 milljarða. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 96,1 milljarði króna
hagstæðari en á sama tíma árið áður.
Samkvæmt bráðabirgðatölum
voru í desembermánuði fluttar út vörur fyrir 42,0 milljarða króna og
inn fyrir 35,0 milljarða króna fob (38,0 milljarða króna cif).
Vöruskiptin í desember, reiknuð á fob verðmæti, voru því samkvæmt
bráðabirgðatölum hagstæð um 7,0 milljarða króna. Í desember 2008 voru
vöruskiptin hagstæð um 26,4 milljarða króna á sama gengi, að því er segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.
Útflutningur dróst saman um 20,6%
Í bráðabirgðatölum fyrir árið hefur verið leiðrétt fyrir verslun með skip og flugvélar á árinu 2009.
Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 2009 var heildarverðmæti vöruútflutnings 20,6% minna en á sama tíma árið áður á föstu gengi.
Iðnaður stærri en sjávarútvegur
Iðnaðarvörur voru 48,2% alls útflutnings og er þetta annað árið í röð, frá því að skráning á árlegum útflutningi hófst með reglubundnum hætti árið 1862, sem hlutdeild iðnaðarvara er hærri en sjávarafurða. Verðmæti iðnaðarvara var 26,5% minna á árinu 2009 en árið áður og vó ál þyngst í útflutningnum. Sjávarafurðir voru 42,0% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 9,2% minna en á sama tíma árið áður.
Stærsti liður útfluttra sjávarafurða var fryst fiskflök og dróst útflutningur þeirra saman frá árinu 2008. Sölur á skipum og flugvélum drógust saman á árinu.
Verðmæti innflutnings minnkar um 35,4%
Samkvæmt bráðabirgðatölum var
verðmæti vöruinnflutnings á árinu 2009 35,4% minna á föstu gengi en á
sama tíma árið áður. Stærstu liðir innflutnings 2009 voru hrá- og
rekstrarvara með 30,5% hlutdeild og fjárfestingarvara með 21,6%
hlutdeild. Samdráttur varð í nær öllum liðum innflutnings en af
einstökum liðum varð mestur samdráttur, í krónum talið, í innflutningi
á hrá- og rekstrarvöru, í innflutningi á fjárfestingavöru og á
flutningatækjum, aðallega fólksbílum og flutningatækjum til
atvinnurekstrar.