Dómsmálaráðherra Sviss varaði við því í dag að svo gæti farið að svissneski bankinn UBS gæti farið í þrot ef ekki tekst að semja við bandarísk stjórnvöld varðandi fjársvik í tengslum við skattaskjól.
Hegðun UBS í Bandaríkjunum var mjög vafasöm. Ekki bara vegna þess að hún varðar við lög heldur einnig þau áhrif sem þetta hefur haft á allan rekstur bankans, segir Eveline Widmer-Schlumpf í viðtali við Le Matin Dimanche.
Hún segir að ef UBS fer á hliðina þá hefði það gríðarleg áhrif á allt hagkerfi Sviss og vinnumarkaðinn. Hún segist óttast að svo geti farið ef bandarísk yfirvöld ákveða að svipta bankann réttindum til að starfa í Bandaríkjunum.
Samið var um það í fyrra að UBS myndi afhenda bandarískum yfirvöldum upplýsingar um 4.500 viðskiptavini bankans sem grunaðir eru um skattsvik. Hins vegar telur svissneskur dómsstóll að samkomulagið standist ekki. Telja fjölmargir íbúar Sviss, sem er þekkt fyrir fjármálastarfsemi, að svissneskum stjórnvöldum hafi mistekist að standa vörð um hag bankans.
Dómsmálaráðherrann er ósammála því og segir að ekki sé hægt að saka stjórnvöld um slíkt.