Tryggingarisinn AIG sem bandarísk stjórnvöld þurftu að bjarga á síðasta ári frá gjaldþroti ætlar að hefja greiðslur á bónusum til starfsmanna í dag. Um er að ræða greiðslur upp á 100 milljónir Bandaríkjadala, 12,7 milljarða íslenskra króna. Mikil reiði er meðal almennings í Bandaríkjunum vegna þessa. Ekki er nema ár síðan svipuð áform stjórnenda AIG ollu mikilli reiði meðal stjórnmálamanna í Bandaríkjunum.
Kenneth Feinberg, sem sér um að fara yfir fjármál bandarískra stórfyrirtækja á vegum fjármálaráðuneytisins, sagði í morgunþætti ABC, Good Morning America, að stjórnvöld væru að reyna að stöðva hluta bónusanna en þeir væru hluti af lögbundnum samningum sem standa þurfi við.
Feinberg segist skilja vel reiði almennings en ekki sé hægt að brjóta lög og taka bónusgreiðslurnar af starfsmönnum.Bandaríkjastjórn kom AIG til bjargar með styrkjum af almannafé þegar fyrirtækið riðaði til falls. Sú ákvörðun félagsins að greiða út kaupauka í mars í fyrra þrátt fyrir að lifa á ríkisstyrkjum vakti almenna reiði í Bandaríkjunum. Þá samþykktu helstu yfirmenn félagsins að endurgreiða bónusana en ekki er vitað hvað verður úr í ár.