Hagnaður af rekstri Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) á árinu 2009 var 50 milljónir króna. Er þetta umfram áætlanir sambandsins. Engar vaxtaberandi skuldir hvíla á sambandinu í fyrsta skipti í rúman áratug.
Rekstrartekjur KSÍ námu 703 milljónum króna samanborið við 870 milljónir króna á árinu 2008. Segir á heimasíðu sambandsins að lækkun rekstrartekna skýrist fyrst og fremst af lækkun á erlendum tekjum. Rekstrarkostnaður KSÍ var nánast á áætlun en frávikin voru vegna aukinna landsliðsverkefna og ákvörðunar stjórnar KSÍ að taka á sig aukinn kostnað vegna dómara sem áður féll á aðildarfélögin.
Vaxtatekjur KSÍ á árinu 2009 voru um 53 milljónir króna og innleystur gengishagnaður um 38 milljónir króna sem er mikill viðsnúningur frá fyrra ári.
Styrkir til aðildarfélaga á árinu námu um 96 milljónum króna. Voru það styrkir úr mannvirkjasjóði, styrkir til félaga vegna barna- og unglingastarfs, leyfiskerfis og fleira.
Erlend skammtímalán, að upphæð um 600 milljónir króna, sem tekin voru vegna framkvæmda við skrifstofu- og fræðslusetur KSÍ voru greidd upp á árinu. Handbært fé frá rekstri er um 328 milljónir króna og eigið fé tæpar 234 milljónir króna.