Fundur fjármálaráðherra sjö helstu iðnríkja heims, sem haldinn er um helgina, fer fram á óvenjulegum stað: nyrst í Kanada þar sem ís og snjór setja svip sinn á umhverfið. Ráðherrarnir prófuðu að aka hundasleða og skríða inn í snjóhús, sem inúítar reistu við fundarstaðinn.
Fundurinn fer fram í Iqaluit, höfuðborg Nunavut á heimskautasvæðum Kanada. Þar búa um 6000 manns og öll hótelherbergi í bænum eru full.
Jim Flaherty, fjármálaráðherra Kanada, sagði eftir að hafa farið í ferð á hundasleða að hann hefði náð nokkrum tökum á þessari list. Honum tókst hins vegar ekki eins vel upp þegar hann fór inn í snjóhús, sem heimamenn höfðu reist framan við héraðsþinghúsið í Iqaluit. Það tók nokkrar klukkustundir að reisa snjóhúsið en Flaherty rakst utan í innganginn og tók úr honum stórt stykki.
Helsta umræðuefnið á fundi G7 ríkjanna er skuldavandi margra Evrópuríkja. Fundinn sitja m.a., auk Flahertys, Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og Ben Bernanke, seðlabankastjóri, Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, Naoto Kan, fjármálaráðherra Kapans, Guilio Tremonti, fjármálaráðherra Ítalíu, Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar og Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands.