Fjármálasérfræðingar eru sagðir í uppnámi eftir að skýrt var frá því í gærkvöldi hvað forstjórar stærstu bankanna á Wall Street fengu í launaauka fyrir síðasta ár. Ástæðan er sú, að launaaukarnir þykja lágir í samanburði við undanfarin ár, og felast aðallega í hlutabréfum, sem forstjórarnir mega ekki selja næstu árin.
Þannig fékk Lloyd Blankfein, forstjóri Goldman Sachs, 9 milljóna dala bónus fyrir síðasta ár, jafnvirði 1,16 milljarða króna. Bónusinn er greiddur í hlutabréfum, sem Blankfein má ekki selja næstu fimm árin.
Þá fékk Jamie Dimon, forstjóri og stjórnarformaður JPMorgan Chase, 16 milljóna dala bónus, jafnvirði rúmlega 2 milljarða króna, en sá launaauki er allur greiddur í hlutabréfum og með kauprétti á hlutabréfum.
Sérfræðingar lýstu talsverðri undrun yfir þessu í gærkvöldi. Ráðgjafinn Brian Foley sagði við Wall Street Journal, að þessir bónusar séu mun lægri en búist var við.
Annar ráðgjafi, Alan Johnson, sagði við CNN, að þessi niðurstaða kæmi honum í opna skjöldu. Hann sagðist hafa reiknað með því að forstjóri Goldman Sachs fengi um það bil 40 milljónir dala í bónus fyrir síðasta ár, jafnvirði nærri 5,2 milljarða króna.
Þá segja sérfræðingarnir, að það komi einnig á óvart að bónusar bankastjóranna séu greiddir út í hlutabréfum.
Árið 2007 fékk Lloyd Blankfein samtals 68 milljónir dala sem greiddar voru í reiðufé og hlutabréfum. Hann afþakkaði bónusa fyrir árið 2008.
Orðrómur hafði verið um að bankastjórarnir á Wall Street myndu frá gríðarháa bónusa í ljósi góðrar afkomu stóru fjárfestingarbankanna í fyrra. Þannig sagði breska blaðið The Times, að Blankfein kynni að fá allt að 100 milljónir dala.