Fréttaskýring: Ýmsar leiðir færar við að tryggja dreifða eignaraðild

Til að tryggja dreift eignarhald á Högum eru tvær leiðir færar, að sögn Finns Sveinbjörnssonar, bankastjóra Arion banka. „Í útboðinu sjálfu er hægt að setja ýmis skilyrði, til dæmis að hver og einn aðili megi ekki kaupa meira en tiltekinn hlut í félaginu. Þá er einnig hægt að krefjast þess að eignaraðild að lögaðilum, sem vilja kaupa hlut í Högum, sé skýr.“

Eftir útboð og skráningu segir Finnur að við taki almenn lög og reglur um hlutabréfamarkaðinn. „Þar eru til dæmis ákvæði um að fari eignarhlutur eins eða fleiri tengdra aðila yfir 30% eru þeir skyldugir til að gera öðrum hluthöfum tilboð í þeirra hluti.“

Hugsanlega selt í þrepum

Finnur segir að nú taki við undirbúningsferli, þar sem skilyrði og framkvæmd útboðsins verði ákveðin. Ekkert liggi fyrir sem stendur, en hugsanlega fari útboðið fram í þrepum í stað þess að allt hlutaféð sé boðið til sölu í einu. „Þannig er hugsanlegt að fyrst verði fagfjárfestum boðið að kaupa hluti í Högum og svo fái almenningur að kaupa hlutabréf, en á þessu stigi hefur ekkert verið ákveðið um hvernig þetta verður gert. Við ætlum að fá til liðs við okkur erlenda ráðgjafa til að tryggja að útboðið verði eins faglegt og hægt er, enda eru augljósir hagsmunir bankans fólgnir í því að þetta gangi sem best.“

Að sögn Finns er ómögulegt að segja til um núna hvort söluandvirði Haga dugi fyrir skuldum móðurfélagsins 1998 ehf. við bankann. „Ég get ekki tjáð mig um málefni einstakra viðskiptavina. Almennt er ferli í málefnum, þar sem eignir duga ekki fyrir skuldum, þannig að horft er til þess hvort einhverjar tryggingar séu fyrir hendi. Ef svo er er gengið að þeim tryggingum.“

Að mati bankans var sú leið, sem ákveðin hefur verið við sölu Haga, álitin þjóna hagsmunum hans best. „Markmið bankans hlýtur að vera að hámarka það verð sem fæst fyrir félagið. Hagar eru stórt og öflugt félag og frá sjónarhóli bankans var heppilegra að selja það í einu lagi með skráningu í Kauphöll. Þá verður einnig að horfa til þess að þetta styrkir Kauphöllina, sem er mikilvægur þáttur í enduruppbyggingu atvinnulífs á Íslandi.“

Fordæmir ákvörðun

Feðgarnir Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson, hafa tryggt sér með beinum eða óbeinum hætti, yfirráð yfir stórum hluta hlutafjár í Högum áður en útboðið hefur farið fram, að mati Guðmundar Franklín Jónssonar, fjárfestis og eins aðstandenda Þjóðarhags.

„Gera má ráð fyrir því að Arion selji ekki öll hlutabréfin í einu lagi, heldur muni hann halda eftir 25-35 prósentum til að byrja með. Eins má gera ráð fyrir því að bankinn muni ekki kjósa á móti ákvörðunum feðganna eða stjórnenda Haga. Þegar er ljóst að þeir muni geta keypt 15 prósent til viðbótar við 2,3 prósent, sem þeir eiga fyrir og þegar þetta allt er lagt saman er ljóst að þeir halda um stjórnartaumana ennþá.“

Hvað varðar þá fagfjárfesta, sem Arion vill fá til kaupa á bréfum í Högum, segir Guðmundur að þar sé átt við lífeyrissjóðina. „Eru þeir ekki búnir að tapa nóg á feðgunum? Reynslan sýnir að það er dauðadómur að fara inn í félög með þeim.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK