Fjármálaaðgerðum haldið áfram

Fjármálaráðherrar helstu iðnríkja heims ákváðu á fundi í Kanada í gærkvöldi að halda áfram aðgerðum til að örva fjármálamarkaðinn til að styrkja efnahagslíf í heiminum sem er smátt og smátt að hjarna við eftir fjármálakreppuna. Þá ákváðu ráðherrarnir að fella niður hluta af erlendum skuldum Haítí.

„Við verðum að tryggja að við gröfum ekki undan efnahagsbatanum í heiminum," sagði Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, á blaðamannafundi ráðherranna í Iqaluit nyrst í Kanada. 

„Við munum halda áfram að styðja hagkerfi okkar þar til efnahagsbati er kominn vel á veg," sagði Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands. „Við náðum miklum árangri árið 2009. „Hættan er, að árið 2010 muni heimurinn gleyma hve alvarleg staðan var og að margt er ógert."  

Miklar áhyggjur komu fram á fundinum af opinberum skuldum margra Evrópuríkja, svo sem Grikklands, Spánar og Portúgals. Grikkland er nú komið í gjörgæslu hjá Evrópusambandinu og hefur boðað umfangsmiklar aðgerðir til að draga úr fjárlagahalla, sem nemur 12,7% af landsframleiðslu. Fjárlagahalli Portúgals var 9,3% á síðasta ári, sá mesti frá árinu 1974.  

Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, sagði í síðustu viku að mikill fjárlagahalli og opinberar skuldir græfu undan efnahagsstöðugleika á evrusvæðinu. Samanlagðar skuldir G7 ríkjanna nema nú 30 billjónum dala eftir mikil opinber útgjöld á síðasta ári vegna fjármálakreppunnar. 

Á fundinum ákváðu fjármálaráðherrarnir að fella niður skuldir Haítí við ríkin, að halda áfram að vinna að endurbótum í bankakerfinu og þrýsta á Kína að láta gjaldmiðil sinn fljóta í samræmi við stefnu sem ákveðin var á fundi ríkjanna í Istanbul í október. 

Fundinn sátu fjármálaráðherrar Bretlands, Bandaríkjanna, Frakklands, Kanada, Japans, Þýskalands og Ítalíu auk embættismanna frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alþjóðabankanum, Evrópusambandinu og seðlabanka Bandaríkjanna.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka