Hagnaður Coca Cola Company jókst um 17% árið 2009 frá árinu á undan, fyrst og fremst vegna velgengni á mörkuðum í þróunarlöndum. Alls varð hagnaður gosframleiðandans 6,82 milljarðar bandaríkjadala á síðasta ári.
Hagnaður síðasta ársfjórðungs var 55% meiri en á sama tíma 2008 og kóksala á heimsvísu jókst um 5%. Það má ekki síst rekja til þess að salan rak upp á þróunarmörkuðum s.s. í Kína, á Indlandi og í Brasilíu. Þróunin þar bætti upp fyrir örlítinn samdrátt sem varð í sölu Coca cola í Norður-Ameríku, að undanskildu Coke Zero, sem jókst í vinsældum og seldist 17% meira en 2008.
„Við enduðum árið vel," segir Muhtar Kent, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Coca Cola Company. Hann segir að vörur Coca Cola njóti áfram vaxandi vinsælda þrátt fyrir erfiðar efnahagsaðstæður. Fyrirtækið hefur snúið sér í auknum mæli að nýjum mörkuðum í þróunarlöndum eftir að bandarískir neytendur hófu að draga úr gosneyslu sinni.