Íslenska hagkerfið hefur á mælikvarða landsframleiðslu í dollurum skroppið mikið saman frá því fjármálakreppan skall á. Var landsframleiðslan hér á landi 20,3 milljarðar bandaríkjadala á árinu 2007 metið á gengi þess tíma en 11,8 milljarðar dala á síðasta ári samkvæmt samantekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem Greining Íslandsbanka vitnar til í Morgunkorni sínu.
Fram kemur að landsframleiðslan hér á landi í fyrra hafi verið 0,08% af landsframleiðslunni í Bandaríkjunum á sama tíma og 0,5% af landsframleiðslu Bretlands. Í samanburði við hin Norðurlöndin sé íslenska hagkerfið heldur ekki stórt. Í fyrra var landsframleiðslan hér á landi 2,9% af stærð sænska hagkerfisins, 3,2% af stærð norska hagkerfisins, 4,9% af stærð finnska hagkerfisins og 3,8% af stærð danska hagkerfisins.
Kaupmáttur landsframleiðslunnar hefur hins vegar að sögn Íslandsbanka skroppið minna saman síðan 2007 en hreinn samanburður í dollurum gefur tilefni til að ætla. Mælt í jafnvirðisgildi gjaldmiðla var landsframleiðslan hér á landi 0,09% af landsframleiðslunni í Bandaríkjunum árið 2007 en er nú 0,08%. Í samanburði við breska hagkerfið hefur það íslenska svona metið farið úr 0,57% á þessum tíma niður í 0,55%.
Ef miðað er við landsframleiðslu á mann svona mælda var Ísland í 8. sæti í samanburði 33 iðnvæddra ríkja í gagnagrunni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins árið 2007. Árið 2009 var landið komið í 12 sæti í þessum 33 ríkja samanburði. Segir Íslandsbanki, að þrátt fyrir kreppuna séu efnahagsleg lífsgæði hér á landi góð í alþjóðlegum samanburði metin með þessum hætti.