Fyrirtækið A. Karlsson hefur verið lýst gjaldþrota. Þorsteinn Einarsson skiptastjóri segir að reynt verði að selja fyrirtækið sem fyrst, í einu lagi eða í bútum. Verslun fyrirtækisins er opin í dag. 36 stöðugildi eru hjá fyrirtækinu.
A. Karlsson hefur verið rekið með tapi undanfarin ár, en tapið á árinu 2008 nam 477 milljónum króna. Skuldir fyrirtækisins í árslok 2008 námu tæplega 900 milljónum, um helmingur skammtímaskuldir. Stærsti kröfuhafinn er Landsbanki Íslands.
A. Karlsson er fyrirtæki sem selur vörur á sviði heilbrigðismála, húsgögn og
fleira. Atorka keypti fyrirtækið árið 2004 og í framhaldi sameinaðist það
fyrirtækinu Besta hf. Í árslok 2007 seldi Atorka hlut sinn í A. Karlssyni. Kaupendur voru tveir,
Hraunhólar ehf. sem keypti 51% og Beta ehf. sem keypti 49% hlut. Beta er alfarið
í eigu Atorku, en Hraunhólar eru í eigu Lindu B. Gunnlaugsdóttur, forstjóra A.
Karlssonar. Atorka lánaði fyrir kaupverðinu.