Í lok síðasta árs nam hrein eign lífeyrissjóðanna 1.794 milljörðum króna. Eignirnar hækkuðu um 203 milljarða á síðasta ári. Í krónum talið er hrein eign lífeyrissjóðanna hærri en hún var fyrir hrun bankanna.
Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum frá Seðlabanka Íslands um stöðu lífeyrissjóðanna. Samkvæmt tölunum hækkuðu eignir lífeyrissjóðanna um 12,8% á síðasta ári að nafnvirði. Þó að verðmæti eigna lífeyrissjóðanna hafi vaxið síðustu mánuðina er hrein eign sjóðanna að raunvirði þó enn lægri en hún var fyrir hrun, eða sem nemur um 4%.
Enn er nokkur óvissa um endanlegt mat á eignum lífeyrissjóðanna. Stærstur hluti eigna lífeyrissjóðanna eru í verðbréfum með föstum tekjum eða rösklega þúsund milljarðar.