Kaupþing býður afskriftir í Svíþjóð

mbl.is/Ómar

Viðskiptavinum fjármálafyrirtækisins Acta í Svíþjóð sem keyptu gjaldeyrisskuldabréf fyrirtækisins hefur nú verið boðið nokkurs konar skaðabætur. Þannig býðst Kaupþing til þess að afskrifa 40% af skuldum viðskiptavina Actas auk þess sem fólk fær aukalega þriggja mánaða frest til þess að greiða eftirstöðvar skuldanna. Þeir sem þiggja tilboðið fyrirgefa rétti sínum til þess að sækja rétt sinn gagnvart Acta og Kaupþingi fyrir dómi. Þetta kemur fram á vef sænska dagblaðsins E24.

Forsaga málsins er sú að á árunum 2006 og 2007 fóru rúmlega 3.200 Svíar að ráði Acta og fjárfestu í svonefndum vaxtareikningum fyrirtækisins sem byggðu á illræmdum gjaldeyrisskuldabréfum gefnum út af Lehman bræðrum.

Acta átti á þessum tíma í samvinnu við Kaupþing, en margir viðskiptavina Actas tóku lán hjá Kaupþingi til þess að geta fjárfest í gjaldeyrisskuldabréfunum. Algengast var að fólk tæki rúmlega 6 milljónir króna að láni. Hugmyndin var að viðskiptavinirnir stæðu í skuld við Kaupþing en ættu jafnframt kröfu á hendur Lehman bræðrum. Allir þekkja framhaldið um fall Lehman bræðra haustið 2008 og ríkisvæðingu Kaupþings í framhaldinu.

Á núverandi tímapunkti er er verðmæti skuldabréfanna fullkomlega óljóst, enda óljóst hvað endurheimtist úr þrotabúi Lehman bræðra. Á sama tíma skulda 3.200 Svíar Kaupþingi milljónir og hefur norska innheimtufyrirtækið Lindorff tekið að sér að rukka skuldirnar.

Tilboð Kaupþings frá því í dag felur í sér að viðskiptavinur sem fékk 5,4 milljónir íslenskar krónur að láni, sem var meðaltalsupphæð lána hjá viðskiptavinum Acta, getur selt skuldabréf sín til Kaupþings og losnað þannig við 40% af skuldinni sem þýðir að hún lækkar í rúmar 3 milljónir króna.

Blaðamaður E24 bendir á að ókosturinn við að fara þessa leið sé að viðskiptavinir fyrirgeri rétti sínum til þess að höfða dómsmál gegn Acta og Kaupþing og láta reyna á rétt sinn fyrir dómi. Auk þess afsali viðskiptavinir, selji þeir skuldabréf sín, hugsanlegan ávinning skuldabréfanna í framtíðinni.

Að mati blaðamanns vekur tilboð Kaupþings og Acta ýmsar spurningar. Þannig leiðir hann líkur að því að Kaupþing muni áframselja skuldabréfin eins fljótt og auðið er. Talið er að Kaupþing geti fengið 30% af andvirði bréfanna í slíkri sölu. Þar sem viðskiptavinum Actas býðst 40% niðurfelling af skuldum sínum þýðir það í reynd að Kaupþing afskrifar 10% af heildarskuldunum. Talið er að heildarniðurfellingin nemi 23 milljörðum króna sem þýðir að tap Kaupþings verður sem samsvarar 2,3 milljörðum íslenskra króna.

Tekið er fram í greininni að ekki sé að svo stöddu vitað hvort Acta muni greiða einhvern hluta þessa taps Kaupþings.

„Acta og Kaupþing hafa komist að samkomulagi um þessa lausn með það að markmiði að finna ásættanlega lausn fyrir þá sem fjárfest hafa í þessum skuldabréfum,“ er haft eftir Mathias Andersson, forstjóra Actas í Svíþjóð. Hvað nánari útfærslu málsins vísar hann á Per Berglöf hjá Delphi, en sá vildi ekki ræða við blaðamann E24.

Samkvæmt þessu virðist líta út sem Kaupþing muni eitt bera kostnaðinn gagnvart viðskiptavinum Actas samtímis því sem Acta fríar sig allri ábyrgð þrátt fyrir að fram séu komnar hátt í tvöhundruð opinberar kvartanir um lélega eða ranga fjármálaráðgjöf.










 

 









mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK