Eignarhaldsfélagið Vestia, sem er dótturfyrirtæki Landsbankans, fer nú með allt hlutafé í Icelandic Group í kjölfar þess að bankinn hefur tekið yfir eignarhald á móðurfélagi þess, Eignarhaldsfélaginu IG. Icelandic Group er eitt 10 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja heims og eitt af 5 stærstu í Evrópu.
Eignarhaldsfélagið IG var stofnað í október 2008 til að fara með eignarhald á Icelandic Group. Landsbankinn vildi ekki á þessum tíma ekki taka þá áhættu að færa félagið inn í eignasafn sitt, enda höfðu eigur bankans erlendis verið frystar að tilskipan breska fjármálaráðuneytisins.
Bankinn lánaði þannig IG ehf., sem var í eigu útgerðarfélaganna Hraðfrystihússins Gunnvarar og Brims, 160 milljónir evra, eða sem nemur 29 milljörðum króna á núvirði, til að setja inn í Icelandic Group svo skuldastaða félagsins liti betur út í augum erlendra kröfuhafa félagsins. En fjármunirnir voru notaðir til að greiða niður skuldir Icelandic Group. Vegna þessa gjörnings var kleift að halda áfram rekstri Icelandic Group, en bæði Gunnvör og Brim eru stórir birgjar félagsins. Láninu sem veitt var IG ehf. verður nú breytt í hlutafé, eins og áður sagði.
Fram kom í Morgunblaðinu í síðustu viku, að stjórnendur Icelandic Group hafi komið til forsvarsmanna Landsbankans og lagt tvo kosti á borðið: Annars vegar að lána fyrirtækinu til að greiða fyrir áframhaldandi rekstri eða setja það í þrot, en Landsbankinn bar mikla áhættu vegna rekstrar Icelandic Group.
Ákveðið var að veita félaginu lánið en fjármunirnir sem um ræðir fóru í raun aldrei út úr bankanum þar sem skuldin færðist yfir á eignarhaldsfélagið IG. Eigið fé Landsbankans á þeim tíma sem lánveitingin fór fram var um 150 milljarðar króna og því er ljóst að lánið nam um 20% af eigin fé.
Fram kemur á heimasíðu Vestia, að tilfærsla eignarhaldsins sé unnin í góðu samráði og samstarfi við fyrri eigendur félagsins. Þessi breyting muni ekki hafa nein áhrif á stefnu eða daglegan rekstur Icelandic Group, heldur verði hún til að styðja yfirstjórn félagsins og renna frekari stoðum undir þau verðmæti sem í rekstri félagsins felast.
„Icelandic Group stendur nú fjárhagslega styrkum fótum, en verulegur viðsnúningur hefur orðið í rekstri þess á undanförnum 18 mánuðum, eða frá því að fjárhagsleg endurskipulagning félagsins hófst í október 2008. Á þessum tíma hefur verið unnið ötullega að því að lækka skuldir og veltufjárbindingu félagsins og hefur framlegð þess aukist í kjölfarið. Reksturinn skilar nú hagnaði," segir á heimasíðunni.
Þá segir að með aðkomu Vestia að Icelandic Group sé stigið lokaskref fjárhagslegrar endurskipulagningar félagsins. Gert sé ráð fyrir að samsetning stjórnar verði óbreytt að öðru leyti en því að fulltrúi Vestia mun taka sæti í stjórn félagsins.
Ákvörðun um tímasetningu sölu Icelandic Group og fyrirkomulag slíkrar sölu verði ekki tekin fyrr en við lok þriðja ársfjórðungs 2010. Næstu mánuði muni Vestia styðja við stjórnendur þess svo hægt sé að fullnýta tækifæri í rekstrinum og hámarka verðmæti hlutafjár þess.
Þegar aðstæður skapast muni Vestia bjóða Icelandic Group til sölu í opnu ferli ellegar skrá hlutabréf félagsins á skipulegan verðbréfamarkað í því skyni að tryggja jafnræði fjárfesta.
Icelandic Group veltir um 1 milljarði evra á ári og ræður yfir alþjóðlegu neti sjálfstæðra fyrirtækja sem starfa hvert á sínum markaði við framleiðslu og sölu á sjávarfangi. Framleiðslu- og sölufyrirtæki Icelandic Group eru í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Hjá félaginu starfa um 3900 manns.