Hremmingar japanska bílarisans Toyota halda áfram. Nú hefur verið tilkynnt um innköllun á 8.000 pallbílum í Bandaríkjunum af gerðinni Tacoma vegna galla í drifbúnaði. Samskonar búnaður, frá fyrirtækinu Dana, hefur verið í bílum Ford og Nissan en ekki hefur þótt ástæða til að innkalla þá.
Um er að ræða nýjustu árgerðina af Tacoma pallbílum, sem komið hafa á markað í Bandaríkjunum. Dana tilkynnti til öryggisyfirvalda í Bandaríkjunum að búnaður sem það útvegaði Toyota, Ford og Nissan gæti mögulega verið bilaður. Ford gerði sérstaka könnun á þeim Escape-bílum sem búnaðurinn var settur í, auk bíla af gerðinni Mercury Mariner, og fann enga bilun. Sömu niðurstöðu komst Nissan að en mun færri bílar af þeirri gerð fengu drifbúnað frá Dana.
Í frétt Reuters er haft eftir talsmönnum Toyota að möguleikar séu á einhverri bilun í pallbílunum, sem geti haft þau áhrif að ökumenn missi stjórn á þeim við ákveðnar aðstæður.
Áður hafði Toyota tilkynnt innköllun á 8,5 milljón bílum um allan heim vegna margs konar bilana, einkum vegna bremsubúnaðar og bensíngjafar.