Í nýrri skýrslu Olivier Blanchard, aðalhagfræðings Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, er leitt að því líkum að verðbólgumarkmið seðlabanka víðsvegar um heim kunni að hafa dýpkað fjármálakreppuna sem brast á árið 2008 og komi hugsanlega til með tefja viðsnúning alþjóðahagkerfisins.
Í skýrslu sinni færir Blanchard rök fyrir því að seðlabankar ættu að styðjast við hærri verðbólguviðmið í venjulegu árferði þannig að svigrúm þeirra til þess að bregðast við meiriháttar efnahagsáföllum verði meira þegar þau dynja á. Hann segir að seðlabankar ættu að horfa frekar til 4% verðbólgumarkmiðs í stað 2% verðbólgu, en það er algengt viðmið í stjórn peningamála á Vesturlöndum.
Miðað við 4% verðbólgu ættu skammtímavextir að vera á bilinu 6-7% við venjulegar aðstæður í hagkerfum að mati Blanchard. Þetta myndi gera að verkum að seðlabankar hefðu umtalsvert svigrúm til þess að lækka stýrivexti til þess að bregðast við efnahagsáföllum áður en að þeir fara nálægt núlli. Sem kunnugt er þá hafa seðlabankar beggja vegna Atlantsála lækkað stýrivexti nánast niður í núll vegna efnahagsástandsins. Vandamálið við svo lága vexti er að það er nánast ómögulegt að lækka þá enn frekar dugi þeir ekki til að koma hjólum atvinnulífsins af stað.
Fleiri þungavigtarmenn í röðum hagfræðinga hafa viðrað svipaðar skoðanir. Paul Krugman, handhafi minningarverðlauna sænska seðlabankans til heiðurs Alfreð Nobel, ritaði á bloggsíðu sinni á dögunum að fólk myndi ekki eiga í miklum erfiðleikum með að aðlaga sig að 4% verðbólgu í stað 2% og að fórnarkostnaðurinn af aðeins hærri verðbólgu væru sennilega minniháttar. Hærri verðbólga myndi hinsvegar draga úr atvinnuleysi til lengri tíma og þar af leiðandi væru áhrifin jákvæð.