Færri ökutæki hafa verið nýskráð hjá Umferðarstofu það sem af er árinu í samanburði við sama tímabil í fyrra. Frá 1. janúar til 15. febrúar hafa 316 ökutæki verið nýskráð en þau voru 444 eftir jafn langt tímabil á síðasta ári. Þetta er rétt tæplega 29% færri ökutæki milli ára.
Umferðarstofa segir, að eigendaskiptum ökutækja hafi einnig fækkað töluvert það sem af er árinu miðað við sama tímabil í fyrra. Á fyrstu 45 dögum ársins hafa 6861 eigendaskipti verið gerð á ökutækjum samanborið við 9247 eigendaskipti eftir jafn marga daga á síðasta ári. Þetta er 26% fækkun milli ára.
Samkvæmt tölum, sem samband evrópskra bílaframleiðenda birtu í dag fjölgaði nýskráningum í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins um 13% í janúar miðað við janúar í fyrra. Mest fjölgaði nýskráningum í Noregi, um 81%, og Portúgal, um 62%. Mestur samdráttur var í Rúmeníu, nærri 85%, Ungverjalandi, 54% og Búlgaríu, 47%.