Fjármálaeftirlitið hefur sett á stofn þriggja manna ráðgjafarnefnd um mat á hæfi stjórnarmanna, sem skipuð er sérfróðum einstaklingum. Tilgangurinn með ráðgjafarnefndinni er að stuðla að bættu og hertu eftirliti með því að hæfisskilyrði um stjórnarmenn eftirlitsskyldra aðila séu uppfyllt og ekki síður til að tryggja að stjórnarmenn séu vel meðvitaðir um hvaða þekkingar er krafist og hvað felst í ábyrgð sem fylgir stjórnarstörfum, að því er segir á vef FME.
Ráðgjafanefndina skipa þeir Jón Sigurðsson, rekstrarhagfræðingur sem er formaður, Einar Guðbjartsson, dósent hjá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Rúnar Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Fjármálaeftirlitinu.
„Fjármálaeftirlitið ákveður að teknu tilliti til umfangs á starfsemi viðkomandi eftirlitsskylds aðila, þ. á m. starfsleyfis, reksturs og markaðshlutdeildar, hvort óskað verður eftir umsögn ráðgjafarnefndarinnar. Þegar umsagnar er krafist munu stjórnarmenn verða kallaðir til fundar við ráðgjafarnefndina til viðtals um þau efnisatriði sem varða þekkingu og viðhorf stjórnarmannsins á starfsemi eftirlitsskylda aðilans og ábyrgð stjórnar," segir á vef FME.
Hér er hægt að lesa nánar um nefndina