Íslandsbanki og Capacent hafa undirritað samkomulag um að Íslandsbanki fái að nota svonefnt OPQ32, sem er persónuleikapróf sniðið að ráðningum og þróun stjórnenda og sérfræðinga.
Í tilkynningu frá Capacent segir, að prófið sé hannað af breska fyrirtækinu SHL. Capacent hafi um árabil boðið upp á notkun OPQ og annarra prófa frá SHL en slík próf geri fyrirtækjum m.a. kleift að meta hvort umsækjandi hafi þá eiginleika sem þarf til að ná árangri í tilteknu starfi.
Með samningnum verður Íslandsbanki fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem tekur upp sjálfstæða notkun á OPQ32-prófinu. OPQ er útbreiddasta persónuleikaprófið í heiminum og kom fyrst á markað árið 1984. Í fyrra tóku ríflega 4 milljón manns um allan heim þetta próf, að sögn Capacent.