Forsvarsmenn franska bankans Societe Generale reyna nú að réttlæta greiðslu kaupauka upp á 250 milljónir evra, tæpa 44 milljarða króna, til verðbréfamiðlara hjá bankanum á sama tíma og hagnaður bankans dregst verulega saman. Einungis tvö ár eru liðin frá því að upp komst um stórfellt misferli hjá starfsmanni bankans sem kostaði bankann gríðarlega fjármuni.
Hagnaður Societe General nam 678 milljónum evra á síðasta ári sem er einn þriðji af hagnaði ársins á undan. Hins vegar hafnar stjórnarformaður Societe Generale, Frederic Oudea, gagnrýni sem hefur verið á greiðslur kaupaauka hjá bankanum.
„Societe Generale hefur greitt fyrir kreppuna og fyrri vandamál og við höfum lært okkar lexíu," sagði Oudea í viðtali við BFM útvarpsstöðina í morgun.Hlutabréf Societe Generale hafa lækkað um 4,4% í Kauphöllinni í París í morgun.
Oudea fór yfir stöðu bankans í frönsku atvinnulífi í viðtalinu og sagði að um 60% af starfsfólki bankans í alþjóðlegum viðskiptum og fjárfestingum starfi í París. Þetta eru um 6.000 störf, að hans sögn.
Hann réttlætti greiðslurnar með þeim hætti í viðtalinu að þegar bankinn greiddi miðlara eina evru þá rynnu á sama tíma úr vösum bankans 2,8 evrur inn í mennta- og heilbrigðiskerfið í Frakklandi.
250 milljón evrurnar sem greiddar eru út núna eru kaupaukar fyrir síðasta ár, að sögn stjórnarformannsins. Það þýðir að áform franskra stjórnvalda um 50% skatt á kaupauka ná ekki yfir þessar greiðslur.