Forstjóri breska bankans Lloyds Banking Group, Eric Daniels, mun ekki þiggja kaupauka upp á 2,3 milljónir punda, 457 milljónir íslenskra króna fyrir síðasta rekstrarár. Breska ríkið kom bankanum til aðstoðar með því að dæla milljörðum punda inn í rekstur hans svo að bankinn færi ekki í þrot á síðasta ári.Breska ríkið á 43% hlut í Lloyds bankasamsteypunni.
Til stóð að greiða forstjóranum út kaupauka og var það samþykkt af stjórn bankans. Hann hafnaði hins vegar boðinu annað árið í röð. Segir í tilkynningu frá bankanum að Daniels telji ekki rétt að hætta þeim góða árangri sem er að nást í rekstri bankans með því að veita yfirmönnum kaupauka. Ekki sé viðeigandi að þiggja slíka kaupauka í bankageiranum í dag.
Í síðustu viku var greint frá því að helstu yfirmenn breska bankans Barclays myndu ekki þiggja kaupauka í ár. Hið sama verður væntanlega uppi á teningnum hjá Royal Bank of Scotland. Samkvæmt frétt Financial Times í dag þá á forstjóri RBS, Stephen Hester, rétt á 1,6 milljón punda í kaupauka en að hann muni ekki þiggja greiðsluna.