Kaupaukagreiðslur hjá bankamönnum á Wall Street í New York í Bandaríkjunum, hækkuðu um 17% á síðasta ári og námu þá rúmum tuttugu milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði um 2.500 milljarða króna. Inni í þessum tölum eru ekki kaupaukar í formi kaupréttar á hlutabréfum.
Einnig er búist við að fyrirtækin skili allt að 55 milljarða dala hagnaði. Upplýsingarnar koma frá fylkisendurskoðanda New York fylkis Di Napoli, sem viðurkennir að þó kaupaukarnir séu langt frá að vera á „2007 mælikvarða“ þá sé óhjákvæmilegt að mörgum finnist þeir yfirdrifnir. Di Napoli tekur fram að fyrir hinn venjulega skattgreiðanda sem hafi séð skattfé mokað í fyrrnefnd fyrirtæki þeim til bjargar, hljóti þessar upphæðir að vera bæði beiskar og óskiljanlegar. Starfsemin á Wall Street skipti hins vegar sköpum fyrir efnahag New York ríkis.
Í síðasta mánuði var haft eftir Barack Obama Bandaríkjaforseta að margmilljónakaupaukar Wall Street manna eftir að skattgreiðendur hefðu bjargað þeim, væru til skammar. Slíkar aðgerðir væru hámark ábyrgðarleysisins.
Meðalkaupaukinn á Wall Street á síðasta ári fór í 13.850 dali sem gerir um 1,7 milljónir króna; af honum er svo greiddur skattur. Mest hækkuðu kaupaukarnir um 31%, hjá þremur stærstu fjárfestingabönkum fylkisins, Goldman Sachs, JP Morgan Chase og Morgan Stanley.