Rekja uppboðið til gjaldþrots Kaupþings

Wilshire-svæðið í Hollywood.
Wilshire-svæðið í Hollywood.

Eign Candybræðra, 9900 Wilshire Blvd. í Hollywood, var seld á uppboði í dag. Enginn bauð í eignina nema lánveitandinn, Banco Inbursa, sem hafði farið fram á uppboðið. Landsvæðið er því komið í eigu bankans. 

Talsmaður Candybræðra segir við fréttavefinn Beverly Hills Courier að það séu vonbrigði að framkvæmdirnar séu að engu orðnar en ástæðuna megi rekja beint til gjaldþrots Kaupþings í október 2008.

Eignin sem um ræðir, 9900 Wilshire Boulevard, var í eigu félagsins Project Lotus LLC og hefur félagið ekki getað staðið í skilum á 385 milljón dala, tæpa fimmtíu milljarða króna,  láni sem greiða átti á síðasta ári.

Project Lotus er sameiginlegt verkefni CPC Group Limited, sem er fjárfestingafélag skráð á Guernsey og er í eigu bræðranna Christian og Nick Candy. Auk þess á veitinga- og tískuhúsaeigandinn Richard Karing hlut í félaginu, samkvæmt frétt Beverly Hills Courier. Áður hefur komið fram í breskum fjölmiðlum að Kaupþing hafi átt hlut í verkefninu en sé ekki lengur meðal eigenda þess.

CPC Group keypti landssvæðið, ásamt Kaupþingi, í apríl 2007 á 500 milljónir dala, 64 milljarða króna. Voru kaupin samþykkt í bæjarstjórn Beverly Hills með fjórum atkvæðum gegn 1 í apríl 2008. 

Til stóð að reisa 235 lúxusíbúðir á svæðinu og byggja þar smásöluverslun og veitingastaði. Hefja átti framkvæmdir á svæðinu síðasta sumar og ljúka þeim á þrjátíu mánuðum. Þau áform runnu út í sandinn þegar Kaupþing fór í þrot haustið 2008.

Kaupþing hafði lánað Candy-bræðrum 1,2 milljarða dala en um 300 milljónir dala voru nýttar í kaup á snekkjum og flugvélum, samkvæmt frétt Telegraph. Í október í fyrra tókst Project Lotus ekki að greiða lánið, 365 milljónir dala, sem félagið hafði fengið að láni hjá svissneska bankanum Credit Suisse Group AG.

Credit Suisse seldi skuldabréfið til fimm banka, þar á meðal banka í eigu mexíkóska milljarðamæringsins Carlos Slim, Banco Inbursa.
Í júní í fyrra höfðaði Banco Inbursa mál gegn CPS til þess að endurheimta féð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK