Hagdeild ASÍ spáir því að landsframleiðsla dragist saman um ríflega 5% í ár eftir ríflega 7% samdrátt í fyrra, en botninum verði náð á síðari hluta þessa árs og efnahagsástandið batni árið 2011. Hagvöxtur verður ríflega 2% á því ári og 5,6% á árinu 2012. Spáð er yfir 10% atvinnuleysi í ár og 2011.
Í endurskoðaðri hagspá hagdeildar ASÍ er gert ráð fyrir meiri samdrætti en spáð var í haust og hægari bata í efnahagslífinu. Enn ríkir mikil óvissa um stóriðjuframkvæmdir og allt útlit fyrir að þær frestist a.m.k. fram á næsta ár sem hefur þær afleiðingar að samdrátturinn í ár verður meiri en ráð var fyrir gert og atvinnuleysi meira. Fyrir heimilin þýðir þetta meiri samdrátt í kaupmætti og versnandi lífskjör fram á næsta ár.
Gengið útfrá samkomulagi um Icesave
„Mikil óvissa vegna tafa á lausn Icesave deildunnar og seinagangs í ákvarðanatöku valda því að batinn í efnahagslífinu er hægari en vonir stóðu til. Í spá hagdeildar er hins vegar gengið út frá því að samningum vegna Icesave ljúki á næstu mánuðum og að efnahagsáætlun stjórnvalda og AGS gangi eftir. Þar með verði mikilli óvissu um framvindu efnahagsmála eytt sem auðveldar enduruppbyggingu.
Gangi þetta ekki eftir verður þróunin önnur og mun dekkri en hér er dregin upp. Endurreisn efnahagslífsins tefst þá enn frekar með þeim afleiðingum að niðursveiflan verður dýpri og langvinnari og hagvöxtur minni. Atvinnuleysi verður enn meira og þrálátara og það tekur lengri tíma að ná fyrri lífskjörum á ný," segir í Hagspá ASÍ.
Verðbólgan hefur reynst þrálátari en spáð var í haust af hagdeild ASÍ. Stafar það m.a. af veikari krónu, meiri hækkun opinberra álaga og neysluskatta og minni lækkun íbúðaverðs en vænst var. Verðbólga mældist 7,3% nú í febrúar sem er nokkuð meira en búist var við, að því er segir í spá ASÍ.
Gangi spá hagdeilda eftir lækkar verðbólga hratt á yfirstandandi ári og verður komin niður undir 2% í árslok. Verðlag hækkar síðan lítillega þegar líður á næsta ár og búast má við því að þegar hagkerfið tekur við sér á ný á árinu 2012 aukist verðbólgan að nýju.