Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar nam 2.928 milljónum króna á síðasta ári en árið 2008 nam tap félagsins 17.608 milljónum króna. Eigið fé TM var í árslok 2009 8.039 milljónir króna og var eiginfjárhlutfallið 28%. Heildareignir félagsins námu í árslok 28,5 milljörðum króna. Stoðir, áður FL Group, eiga 99,9% hlut í TM. Helstu eigendur Stoða eru Nýi Landsbankinn og Glitnir en bankarnir voru helstu kröfuhafar í bú félagsins á síðasta ári.
Hagnaður TM af reglulegri starfsemi á árinu 2009 var 237 milljónir króna samanborið við 5.529 milljón króna tap árið 2008. Hagnaður af vátryggingastarfsemi var 342 m.kr. fyrir skatta samanborið við 166 m.kr.
hagnað 2008. Eigin iðgjöld jukust um 5% og voru 9.431 m.kr. samanborið við 8.980 m.kr. á árinu 2008. Eigin tjónakostnaður lækkaði um 5% og var 8.858 m.kr. á árinu 2009 samanborið við 9.373 m.kr. 2008. Rekstrarkostnaður lækkaði um 6% og var 2.192 m.kr. á árinu 2009 samanborið við 2.320 m.kr. 2008.
Laun forstjóra 28 milljónir króna
Laun forstjóra TM, Sigurðar Viðarssonar, námu rúmum 28 milljónum króna á síðasta ári og hafa hækkað á milli ára en árið 2008 var hann með 26,9 milljónir króna í laun.
Stjórnarformaður TM, Jón Sigurðsson sem einnig er framkvæmdastjóri Stoða, fékk laun og hlunnindi upp á 1,8 milljónir króna greiddar frá TM á síðasta ári.