Landsframleiðsla dróst saman að raungildi um 6,5% á árinu 2009 samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í dag. Er þetta mesti samdráttur sem mælst hefur frá því að gerð þjóðhagsreikninga hófst á Íslandi árið 1945 en þó minni en spár gerðu ráð fyrir um tíma og raunar mældist 3,3% hagvöxtur milli 3. og 4. ársfjórðungs en landsframleiðsla á síðasta fjórðungi ársins var 9,1% minni en hún var á sama tímabili árið 2008. Mesti samdráttur sem áður hefur mælst hér á landi nam 5,5% árið 1968 þegar síldin hvarf.
Samdrátturinn hér á landi var þó meiri en að meðaltali í OCED-rikjunum en hann var 3,5%. Hagstofan segir, að þetta sé í annað skiptið á tímabilinu 1997–2009 að hagvöxtur hér á landi sé minni en í OECD-ríkjum en það gerðist einnig á árinu 2002 þegar vöxturinn var um 0,1% samanborið við 1,7% vöxt hjá OECD-ríkjunum í heild.
Samfelldur hagvöxtur hafði fram að þessu verið frá og með árinu 1993 en hagvöxtur á árinu 2008 er talinn hafa verið 1%.
Hagstofan segir, að landsframleiðsla sé talin hafa vaxið um 3,3% að raungildi frá 3. til 4. ársfjórðungs 2009. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld um 2,7% þar sem einkaneysla jókst um 1,4 % og fjárfesting um 16,6%. Samneysla dróst saman um 1,1% milli 3. og 4. ársfjórðungs. Þá er talið að útflutningur hafi vaxið um 3% en innflutningur um 1,5%.
Á síðasta ári varð samdráttur í öllum þáttum þjóðarútgjalda, sem í heild drógust saman um 20,1%. Einkaneysla dróst saman um 14,6%, samneysla um 3% og fjárfesting um 49,9%. Aftur á móti jókst útflutningur um 6,2% á sama tíma og innflutningur dróst saman um 24%.
Hagstofan segir, að þessi þróun hafi valdið því að verulegur afgangur varð af vöru- og þjónustuviðskiptum á árinu 2009, 120 milljarðar króna, borið saman við 42 milljarða króna halla árið áður. Þessi mikli bati varð til þess að samdráttur landsframleiðslu varð mun minni en nam samdrætti þjóðarútgjalda.