Tilmælum Fjármálaeftirlits ekki breytt eftir fund með Baugi

Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hefur sent frá sér athugasemd vegna greinar um Glitni í Sunnudagsmogganum og segir að umfjöllun um leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins þar feli í sér rangfærslur og misskilning. Meðal annars hafi leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins ekki verið breytt eftir fund í höfuðstöðvum Baugs.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er umfjöllun um Glitni banka.  Tengd henni er umfjöllun um leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins sem felur í sér rangfærslur og misskilning, sem auðveldlega hefði mátt leiðrétta hefði blaðið leitað eftir því. 

Í fyrsta lagi er ruglað saman lögbundnum reglum um stórar áhættuskuldbindingar fjárhagslega tengdra aðila og leiðbeinandi tilmælum um upplýsingagjöf um viðskiptakjör venslaðra aðila.  Fyrrnefndu reglurnar setja lögbundin mörk á lánafyrirgreiðslur aðila, en ekki leiðbeinandi tilmælin sem snéru að upplýsingum um viðskiptakjör.

Í öðru lagi var leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins ekki breytt eftir fund í höfuðstöðvum Baugs.  Ég kannast ekki við slík fundarhöld með Baugi um tilmælin.

Í þriðja lagi, er í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins kveðið á um reglulega skýrslugjöf  um viðskiptakjör venslaðra aðila, m.a. allra fyrirtækja sem aðilar er áttu 5% hlut í fjármálafyrirtæki beint eða óbeint áttu a.m.k. 10% hlut í.  Í úttekt bankasérfræðingsins Kaarlo Jannari á árinu 2009 fengu tilmæli þessi góða umsögn.

 Nánari umfjöllun

1)         Af umfjölluninni er ljóst að ruglað er saman gildissviði lögbundinna og alþjóðlegra reglna um stórar áhættuskuldbindingar fjárhagslega tengdra aðila og leiðbeinandi tilmælum um starfsreglur stjórna sem fjölluðu m.a. um upplýsingagjöf vegna fyrirgreiðslu til venslaðra aðila. 

Markmið reglna um stórar áhættuskuldbindingar er einkum að draga úr samþjöppunaráhættu og hafa þær áhrif á svigrúm fjármálafyrirtækja til lánveitinga. Í þeim reglum er um lögfest viðmið að ræða.   Markmið leiðbeinandi tilmælanna er m.a. að fylgjast með viðskiptakjörum venslaðra aðila í samræmi við almenna vísireglu um góða viðskiptahætti.  Á þessu tvennu er töluverður munur, s.s. varðandi lagaheimildir, markmið og gildissvið.

Tilgreining á vensluðum aðilum í leiðbeinandi tilmælunum  hafa því ekki áhrif á „veðhæfni” eða hámörk á fyrirgreiðslur til fjárhagslegra tengdra aðila.  Um slíkt fer eftir reglum um stórar áhættuskuldbindingar.

2)         Umfjöllunin heldur því fram að leiðbeinandi tilmælunum hafi verið breytt eftir fund í höfuðstöðvum Baugs sem FME hefði verið „kallað á”.  Þetta fær ekki staðist.  Ég kannast ekki við slík fundarhöld með Baugi um tilmælin og hvað þá að tilmælunum hafi verið breytt í kjölfar slíks fundar.

3)         Leiðbeinandi tilmælin sem um ræðir, fjölluðu um ýmis atriði er snéru að starfsreglum  stjórna.  Þau voru endurskoðuð á árinu 2006 og hert verulega, m.a. með kröfu um sérstakar skýrslur endurskoðenda um fyrirgreiðslur til venslaðra aðila með mati á því hvort að viðkskiptakjör þessara aðila væru eðlileg (þ.e. byggð á arsmlengdarsjónarmiði), byggt á samanburði við sambærilega ótengda viðskiptavini.  Að auki voru ákveðnar kröfur til bankanna sjálfra um upplýsingagjöf í þessu efni.  Sett var fram tilgreining á því hverjir teldust til venslaðra aðila, án þess að sú tilgreining væri tæmandi.

Eftir útgáfu tilmælanna komu ábendingar um að í hópi 10 stærstu hluthafa bankanna væru alþjóðlegir aðilar með litla eignarhlutdeild, t.d. Citigroup, og tilgreining um vensl og krafa um skýrslugjöf varðandi fyrirtæki sem þessir aðilar gætu átt 10% hlut í væri töluvert íþyngjandi og andstæð meðalhófsreglu.  Fallist var á þau sjónarmið.  Hins vegar var áfram kveðið á um vensl og upplýsingagjöf um viðskiptakjör vegna fyrirgreiðslna til fyrirtækja í eigu stjórnarmanna, stjórnenda, lykilstarfsmanna og hluthafa sem áttu a.m.k. 5% í fjármálafyrirtækinu.  Endurskoðaður 4. tl. hljóðaði svo (en var ekki afnuminn eins og segir í umfjölluninni):

Fyrirtæki sem aðilar skv. 1. og 2. tl. hér að framan og hluthafar sem eiga með beinum eða óbeinum hætti 5% eignarhlut eða stærri í fjármálafyrirtækinu, eiga a.m.k. 10% hlut í, starfa hjá eða gegna stjórnarstöðum fyrir.

Þessu til viðbótar er rétt að taka fram að leiðbeinandi tilmælin voru af alþjóðlegum aðilum talin fela í sér ríkar kröfur og skýrslugjöf endurskoðenda væri til eftirbreytni.  Þannig segir í skýrslu bankasérfræðingsins Kaarlo Jannari til íslenskra stjórnvalda um fjármálaregluverkið (bls. 31):

Í þessu tilliti voru reglur FME í góðu samræmi við alþjóðlega framkvæmd.  Sú krafa að endurskoðendur fyrirtækjanna, til viðbótar við innri endurskoðendur bankanna, staðreyndu og tryggðu að reglunum væri fylgt er til eftirbreytni”.

 4.         Að síðustu er rétt að taka fram að ég tók opinberlega upp gagnrýna umræðu varðandi umfang stórra áhættuskuldbindinga og mikilvægi þess að viðskipti við venslaða aðila væri byggð á eðlilegum forsendum.  Ýmis ágreiningur kom upp á milli FME og fjármálafyrirtækja um tengingar viðskiptamanna samkvæmt reglum um stórar áhættuskuldbindingar.  Jafnframt voru fyrstu skýrslur sem bárust frá endurskoðendum um viðskiptakjör venslaðra aðila oft ekki til fyrirmyndar á árinu 2007 og þurfti að fara fram  á nýjar.  Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp sem mun herða verulega á áðurnefndum reglum um stórar áhættuskuldbindingar og setur jafnframt fram lögbundnar takmarkanir á fyrirgreiðslur til venslaðra aðila.  Ákvæði frumvarpsins um tilgreiningu á vensluðum aðilum sem falla undir takmarkanirnar eru hins vegar rýmri en í leiðbeinandi tilmælum FME. 

Jónas Fr. Jónsson

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK