Það er nánast engin hætta á greiðslufalli íslenska ríkisins og gjaldeyrisforðinn dugar til þess að standa straum af erlendum skuldbindingum ríkisins. Þetta hefur Dow Jones-fréttaveitan eftir Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra.
Í viðtali við fréttaveituna segir Már vonast að matsfyrirtækin taki ekki ákvarðanir um breytt lánshæfismat ríkisins í fljótfærni og hafi í huga þann viðsnúning sem er að eiga sér stað í hagkerfinu. Hann segist hafa áhyggjur af því að matsfyrirtækin lækki lánshæfiseinkunn ríkisins ef samningaviðræður við bresk og hollensk stjórnvöld dragist á langinn og það ásamt töf á útgreiðslu lána frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum gæti aukið efnahagslega óvissu hér á landi að nýju. Slík þróun myndi leiða til þess að ekki yrði hægt að stíga frekari skref í átt að afnámi gjaldeyrishafta og það myndi meðal annars hafa áhrif á fjárfestingu í hagkerfinu og aðrar hagstærðir.
Már segir þó hugsanlegt að nýtt samkomulag við Breta og Hollendinga gæti legið fyrir eftir eina til tvær vikur, það er ef að áhrif þjóðaratkvæðagreiðslunnar breyti ekki farvegi málsins.
Már segir í viðtalinu enga ástæðu til þess að ætla að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafi áhrif á gengi krónunnar. Hann segir helstu úrlausnarefnin felist í að tryggja áframhaldandi viðsnúning og að ríkið geti staðið við þá gjalddaga sem falla veturinn 2011 til 2012. Samtals er um að ræða greiðslur að andvirði tæpa tvo milljarða evra.
Már segir, að þó svo að allt fari á versta veg og engar frekari lánafyrirgreiðslur berist þá gæti ríkið staðið við þessa gjalddaga. En hinsvegar myndu greiðslurnar ganga verulega á gjaldeyrisforðann og gera hagkerfið berskjaldaðra í kjölfarið. Seðlabankinn gæti þá ekki gripið inn í gjaldeyrismarkaðinn til að styðja við krónuna og nauðsynlegt yrði að reka milliríkjaverslun með enn meiri afgangi og skera þyrfti enn meira niður í ríkisfjármálum.